Evrópumeistari með Liverpool fallinn frá

David Johnson með Evrópubikarinn árið 1981.
David Johnson með Evrópubikarinn árið 1981.

David Johnson, einn af Evrópumeisturum Liverpool í knattspyrnu árið 1981, er fallinn frá eftir baráttu við krabbamein.

Johnson, sem var 71 árs gamall, varð fyrstur manna til að skora fyrir bæði Liverpool og Everton í nágrannarimmum liðanna í enska fótboltanum.

Hann lék með Ipswich  framan af ferlinum og var í liðinu sem komst í átta liða úrslit UEFA-bikarsins 1973-74 og spilaði með Everton um skeið.

Hann kom til liðs við Liverpool árið 1976 og var þá dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins en Liverpool greiddi Ipswich 200 þúsund pund fyrir hann.

Johnson varð þrisvar enskur meistari með liðinu og vann Evrópukeppni meistaraliða með liðinu árið 1981. Alls skoraði Johnson 78 mörk í 213 leikjum fyrir Liverpool.

Johnson lék átta leiki með enska landsliðinu og nýtti þá vel því hann skoraði sex mörk í þeim. Eftir að hann yfirgaf Liverpool árið 1982, í kjölfar þess að Ian Rush tók stöðu hans í byrjunarliðinu, lék hann með Everton á ný í tvö ár, með Preston og bandaríska liðinu Tulsa Roughnecks en lauk ferlinum sem spilandi knattspyrnustjóri Barrow árið 1986.

mbl.is