Gerði sex ára samning við Chelsea

Trevoh Chalobah í leik með Chelsea.
Trevoh Chalobah í leik með Chelsea. AFP/Glyn Kirk

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur gengið frá samningi við einn af sínum yngri leikmönnum, Trevoh Chalobah, til hvorki meira né minna en sex ára.

Chalobah, sem er 23 ára gamall Englendingur, hefur verið í röðum Chelsea frá átta ára aldri og leiki hann með félaginu til loka samningsins verður hann þá búinn að vera í herbúðum þess í 21 ár.

Chalobah er varnarmaður eða varnartengiliður og hefur leikið með öllum yngri landsliðum Englands en er þó fæddur í Afríkuríkinu Sierra Leone. Hann flutti aðeins tveggja ára gamall með fjölskyldu sinni til London og á að baki 28 leliki með Chelsea í úrvalsdeildinni. Hann hefur einnig leikið í B-deildinni sem lánsmaður með Huddersfield og Ipswich, og með Lorient í efstu deild Frakklands. 

mbl.is