Uppbótartíminn breytist ekki á Englandi

Dómarar á HM hafa verið drjúgir í uppbótartímanum.
Dómarar á HM hafa verið drjúgir í uppbótartímanum. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Dómarar ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta hafa ekki áhuga á að breyta uppbótartímanum í leikjum deildarinnar, í takt við það sem hefur sést á HM í Katar.

Dómarar á HM hafa jafnan bætt miklu við bæði fyrri og seinni hálfleika, til að koma í veg fyrir að lið hagnist á því að tefja á meðan á leik stendur.

Skiptar skoðanir eru á ágæti uppbótartímans á HM og Daily Mail greinir frá því að dómarar í ensku úrvalsdeildinni hafi lítinn áhuga á að feta í fótspor kollega sinna í Katar.

Samkvæmt miðlinum var dómurum deildarinnar brugðið, þegar þeir sáu mikinn uppbótartíma á HM. Vill enska úrvalsdeildin forða leikmönnum frá frekari álagi og meiðslahættu, með miklum uppbótartíma.

Daily Mail segir einnig að lokamarkmið FIFA sé að hver leikur verði 60 mínútur, 30 mínútur í hverjum hálfleik, og að klukkan stöðvast þegar boltinn fari úr leik.

mbl.is