Gary O‘Neil, sem stýrt hefur enska úrvalsdeildarfélaginu Bournemouth til bráðabirgða í 12 leikjum síðan Scott Parker var látinn taka pokann sinn í lok ágúst síðastliðinn, hefur gert 18 mánaða samning við félagið sem nýr knattspyrnustjóri þess.
Liðið hefur unnið fjóra leiki, gert fjögur jafntefli og tapað fjórum leikjum undir stjórn O‘Neill. Í síðustu fjórum leikjum hefur liðið skorað 12 mörk og haldið marki sínu hreinu í þrígang.
Marcelo Bielsa, fyrrverandi knattspyrnustjóri Leeds, ræddi einnig við Bournemouth en þegar á hólminn var komið þótti forsvarsmönnum liðsins O‘Neil hafa unnið fyrir samningnum.
Það lítur út fyrir að Bandaríkjamaðurinn Bill Foley, sé við það að eignast félagið en aðeins enska úrvalsdeildin á eftir að leggja blessun sína yfir kaupin en líklegt má telja að þau gangi að fullu í gegn á næstu vikum.