„Maður fær bara einn feril“

Declan Rice á blaðamannafundinum í dag.
Declan Rice á blaðamannafundinum í dag. AFP/Nicolas Tucat

Declan Rice, miðjumaður enska karlalandsliðsins í knattspyrnu og West Ham United, hefur gefið það í skyn að hann vilji róa á önnur mið á næsta ári.

Rice er lykilmaður hjá Englandi og Hömrunum og hefur stöðugt verið orðaður við stærri félög undanfarin ár eftir vasklega framgöngu.

Hann viðurkennir að hann vilji spila í Meistaradeild Evrópu og berjast um titla.

„Ég horfi á vini mína spila í Meistaradeildinni og vinna stærstu titlana.

Maður fær bara einn feril og þegar honum lýkur vill maður líta til baka og skoða hvað maður hefur unnið,“ sagði Rice á blaðamannafundi í dag.

Hann er 23 ára gamall og hefur meðal annars verið orðaður við Chelsea, þar sem Rice er uppalinn, og Manchester United.

England mætir Senegal í 16-liða úrslitum HM í Katar næstkomandi sunnudag.

mbl.is