Klár í slaginn eftir innbrotið

Raheem Sterling er klár í að snúa aftur til Katar.
Raheem Sterling er klár í að snúa aftur til Katar. AFP/Kirill Kudryavtsev

Enski knattspyrnumaðurinn Raheem Sterling er klár í að snúa aftur til Katar og leika með landsliði þjóðar sinnar á HM. Sterling fór heim til Englands, eftir að innbrotsþjófar brutust inn á heimi hans, á meðan eiginkona og börn voru heima.

Sterling hefur beðið enska knattspyrnusambandið um leyfi til að snúa aftur til Katar, en enn á eftir ákveða hvort hann komi til móts við liðfélaga sína á ný. BBC greinir frá að sambandið eigi enn eftir að taka ákvörðun.

Leikmaðurinn, sem er 28 ára, lék ekki með Englandi gegn Senegal í 16-liða úrslitum mótsins, en kom við sögu í öllum þremur leikjum liðsins í riðlakeppninni. Hann hafði áhyggjur af líðan barna sína eftir innbrotið og sneri því aftur til Englands. Það hefur þó komið í ljós að engu ofbeldi var beitt í innbrotinu.

England leikur við Frakkland í átta liða úrslitum á laugardaginn kemur. 

mbl.is