Klopp krefst þess að fá Bellingham

Jude Bellingham hefur slegið í gegn með Englandi á HM.
Jude Bellingham hefur slegið í gegn með Englandi á HM. AFP/Adrian Dennis

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur lagt fram þá kröfu að félagið geri allt sem í sínu valdi stendur til þess að kaupa enska miðjumanninn Jude Bellingham.

Það er ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu en Bellingham hefur slegið í gegn með enska landsliðinu á HM í Katar.

Miðjumaðurinn, sem er 19 ára gamall, er samningsbundinn Borussia Dortmund í Þýskalandi en hann er uppalinn hjá Birmingham á Englandi.

Klopp hefur lengi verið aðdáandi leikmannsins en hann kostar í kringum 130 milljónir punda.

Bellingham hefur verið orðaður við öll stærstu félög Evrópu að undanförnu en Liverpool er þó sagt leiða kapphlaupið um hann.

mbl.is