United tapaði á Spáni – „Óásættanlegt“

Erik ten Hag var allt annað en sáttur við sína …
Erik ten Hag var allt annað en sáttur við sína menn. AFP/Glyn Kirk

Enska knattspyrnuliðið Manchester United mátti þola 2:4-tap gegn spænska liðinu Cádiz í vináttuleik á Spáni í dag.

Liðin voru einungis skipuð leikmönnum sem eru ekki með landsliðum sínum á HM og fengu minni spámenn að spreyta sig hjá United.

Þó voru reynslumiklir leikmenn á borð við Anthony Martial, Aaron Wan-Bissaka, Alejandro Garnacho, Donny van de Beek, Martin Dubravka, Victor Lindelöf og Scott McTominay allir í byrjunarliði United.

Það byrjaði ekki vel, því Carlos García og Anthony Lozano komu Cádiz í 2:0 á fyrstu 13 mínútunum. Anthony Martial minnkaði muninn úr víti á 21. mínútu og Kobbie Mainoo jafnaði á 48. mínútu.

Spænska liðið var hins vegar betra í seinni hálfleik, því Rubén Sobrino kom Cádiz í 3:2 á 57. mínútu og Tomás Alcarón gulltryggði 4:2-sigur 20 mínútum síðar.

„Það er ljóst að við mættum sofandi til leiks. Það er óásættanlegt að mæta svona í leiki, sérstaklega á miðjunni, þar sem við töpuðum mikið af einvígum,“ sagði Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, í samtali við sjónvarpsstöð félagsins eftir leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert