Eiður: Aldrei rangstaða

Jöfnunarmark Manchester United í 2:1-sigrinum á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu var til umræðu í Vellinum á Símanum Sport í gærkvöldi.

Bruno Fernandes jafnaði þá metin í 1:1 en leikmenn Man. City vildu fá dæmda rangstöðu á Marcus Rashford, sem var fyrir innan og elti boltann en án þess að snerta hann.

„Aldrei rangstaða. Á engum tímapunkti stoppar neinn í City-liðinu þegar boltinn kemur inn fyrir.

Það eru allir að hlaupa, boltinn kemur inn fyrir og ef hann kemur við hann er hann rangstæður. Hann kom ekki við hann, skot, mark,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen um atvikið.

Margrét Lára Viðarsdóttir var á báðum áttum og Tómas Þór Þórðarson benti á að hinir ýmsu ensku knattspyrnusérfræðingar hafi verið gáttaðir á því að ekki hafi verið dæmd rangstaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert