Palace krækti í stig gegn United með glæsimarki í uppbótartíma

Bruno Fernandes kemur United yfir í leiknum.
Bruno Fernandes kemur United yfir í leiknum. AFP/Adrian Dennis

Crystal Palace og Manchester United skildu jöfn, 1:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Selhurst Park í Lundúnum í kvöld.

Ekkert markvert gerðist fyrr en á 44. mínútu leiksins en Portúgalinn Bruno Fernandes kom gestunum þá yfir. Christian Eriksen fann hann þá aleinan í teig Palace eftir góða sókn en Fernandes hafði nægan tíma til að taka við boltanum, stilla miðið og smella honum í hornið, óverjandi fyrir Vicente Guaíta í marki Palace.

Það var svo í uppbótartíma leiksins sem Palace jafnaði metin og var markið af dýrari gerðinni. Michael Olise lét þá vaða beint úr aukaspyrnu af nokkuð löngu færi og boltinn small í þverslánni og inn. Gjörsamlega frábært mark.

Casemiro fékk svo algjört dauðafæri til að bjarga sigrinum fyrir United á fjórðu mínútu uppbótartíma. United átti fékk þá hornspyrnu og varnarleikur Palace klikkaði, svo Casemiro var aleinn á markteigslínu þegar boltinn barst þangað, en hann náði ekki nægilega mikilli snertingu til að ýta boltanum inn. 

United er í þriðja sæti deildarinnar með 39 stig eftir 19 leiki. Liðið er með jafn mörg stig og nágrannarnir í Manchester City en bæði eru þau átta stigum á eftir toppliði Arsenal. Palace er í 12. sæti með 23 stig.

mbl.is