Einn sá besti hafnaði Liverpool

Kylian Mbappé skoraði þrennu í úrslitaleiknum á HM gegn Argentínu.
Kylian Mbappé skoraði þrennu í úrslitaleiknum á HM gegn Argentínu. AFP/Loic Venance

Kylian Mbappé, sóknarmaður knattspyrnuliðs París SG í Frakklandi, hafnaði því að ganga til enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool síðasta sumar.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Mbappé, sem er 24 ára gamall, hefur verið sterklega orðaður við Liverpool undanfarin ár.

The Athletic greinir frá því að leikmaðurinn hafi frekar viljað ganga til liðs við Real Madrid á Spáni og þegar hann hafi frétt af því að spænska liðið hefði lagt fram tilboð í sig hefði hann hafnað því að fara til Englands.

Mbappé skrifaði að endingu undir nýjan samning við París SG sem gildir út keppnistímabilið 2024-25 en alls á hann að baki 240 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 191 mark.

Hann var í stóru hlutverki með Frakklandi á HM í Katar í vetur þar sem hann skoraði meðal annars þrennu í úrslitaleiknum sem lauk með sigri Argentínu í vítaspyrnukeppni en Mbappé endaði sem markahæsti leikmaður HM með átta mörk.

mbl.is