Fjórum leikjum er nýlokið í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. West Ham vann Everton á heimavelli, 2:0. Jarrod Bowen skoraði bæði mörk West Ham í fyrri hálfleik. West Ham skýst með sigrinum upp úr fallsæti og í 15. sæti deildarinnar með 18 stig. Everton situr sem fastast við botninn með 15 stig.
Bournemouth og Nottingham Forest skildu jöfn á Vitality-leikvellinum í Bournemouth, 1:1. Jaidon Anthony skoraði mark heimamanna og Sam Surridge skoraði mark gestanna. Jafnteflið gerir ekki mikið fyrir Bournemouth sem situr í 18. sæti með 17 stig en Nottingham Forest er í því 13. með 21 stig.
Leicester og Brighton gerðu jafntefli á King Power-leikvanginum, heimavelli Leicester, 2:2. Kaoru Mitoma skoraði fyrsta mark leiksins fyrir gestina á 27. mínútu en Marc Albrighton jafnaði metin fyrir heimamenn áður en Harvey Barnes kom þeim yfir á 63. mínútu. Það var svo hinn ungi Evan Ferguson, sem hafði komið inn á sem varamaður um miðbik síðari hálfleiks, sem jafnaði metin undir lok leiks. Leicester er í 14. sæti með 18 stig en Brighton erí því 6. með 31 stig.
Aston Villa gerði góða ferð til Southampton þegar liðið lagði heimamenn, 1:0. Ollie Watkins skoraði mark gestanna á 77. mínútu. Aston Villa er í 11. sæti með 28 stig en Southampton í 20. og síðasta sæti með 15 stig.