Petit: „Vildi að ég hefði verið inni á vellinum með þeim“

Emmanuel Petit, fyrrverandi leikmaður Arsenal, var sérstakur gestur Vallarins á Símanum Sport á leik Arsenal og Manchester United á Emirates-vellinum í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Petit lék með Skyttunum frá 1997 til 2000 og varð Englandsmeistari með liðinu árið 1998 og heimsmeistari með Frakklandi sama ár. Hann var hæstánægður með magnaðan 3:2-sigur Arsenal í dag.

„Þvílíkur leikur! Þvílík viðbrögð hjá Skyttunum eftir að hafa fengið á sig fyrsta markið. Hvað get ég sagt? Ég vildi að ég hefði verið inni á vellinum með þeim en stemningin á vellinum var frábær.

Strákar, ekki gleyma því að þetta er yngsta lið ensku úrvalsdeildarinnar. Ég er mjög ánægður fyrir hönd liðsins og mjög stoltur af [Mikel] Arteta og liðinu,“ sagði Petit í samtali við Tómas Þór Þórðarson, Bjarna Þór Viðarsson og Gylfa Einarsson eftir leikinn.

Samræður þeirra eftir leikinn á Emirates-vellinum má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is