Kane tilbúinn til að vera um kyrrt

Harry Kane hefur leikið með Tottenham allan sinn feril.
Harry Kane hefur leikið með Tottenham allan sinn feril. AFP/Oli Scarff

Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, er tilbúinn til að skrifa undir nýjan samning við Tottenham Hotspur.

Þetta kemur fram í enska fjölmiðlinum The Athletic í dag en Kane hefur m.a. verið orðaður talsvert við Manchester United að undanförnu.

Kane er samningsbundinn Tottenham til sumarsins 2024 og á því hálft annað ár eftir af samningi sínum við félagið og The Athletic segir að viðræður um nýjan samnng muni fara af stað eftir að lokað hefur verið fyrir félagaskiptin um næstu mánaðamót.

Kane, sem verður þrítugur í sumar, hefur verið í röðum Tottenham frá ellefu ára aldri og  skorað 198 mörk í 299 úrvalsdeildarleikjum fyrir félagið. Samtals hefur hann skorað 265 mörk í 414 mótsleikjum fyrir Tottenham á ferlinum. Hann var í láni um skeið hjá Orient, Millwall, Norwich og Leicester á árunum 2010-2013.

mbl.is