Lampard rekinn frá Everton

Frank Lampard hefur verið rekinn úr starfi sínu sem knattspyrnustjóri …
Frank Lampard hefur verið rekinn úr starfi sínu sem knattspyrnustjóri Everton. AFP/Glyn Kirk

Enska knattspyrnufélagið Everton hefur rekið Frank Lampard úr starfi knattspyrnustjóra eftir slæmt gengi á tímabilinu.

BBC Sport greinir frá.

Lampard tók við starfinu af Rafa Benítez í lok janúar á síðasta ári þegar liðið var í 16. sæti. Þar endaði liðið á síðasta tímabili, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Sem stendur er liðið í næstneðsta sæti deildarinnar með 15 stig, jafnmörg og botnlið Southampton, og hefur unnið fæsta leiki allra liða eftir 20 umferðir, þrjá talsins.

Hefur Everton ekki unnið í síðustu tíu leikjum sínum í öllum keppnum.

Nú er leit hafin af sjötta knattspyrnustjóra liðsins, fyrir utan bráðabirgðastjóra, á fimm árum.

mbl.is