Þrír handteknir vegna níðsöngva í garð samkynhneigðra á Anfield

Thiago í leik Liverpool og Chelsea á Anfield síðastliðinn laugardag.
Thiago í leik Liverpool og Chelsea á Anfield síðastliðinn laugardag. AFP/Paul Ellis

Þrír karlmenn hafa verið handteknir vegna gruns um níðsöngva í garð samkynhneigðra á leik Liverpool og Chelsea á Anfield-vellinum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla um liðna helgi.

Einn þeirra var handtekinn í áhorfendastúkunni og hinir tveir voru handteknir fyrir utan leikvanginn. Um þrjú aðskilin atvik er að ræða.

Mennirnir eru 23, 37 og 49 ára, og voru samkvæmt lögreglunni á Merseyside handteknir vegna gruns um að hafa viljandi viðhaft áreiti sem markaðist af andúð í garð samkynhneigðra.

Hinum 37 ára gamla karlmanni hefur verið sleppt lausum gegn tryggingu á meðan málið er rannsakað frekar og hinir tveir verða yfirheyrðir á næstunni.

mbl.is