Tottenham reynir að ræna Danjuma af Everton

Arnaut Danjuma fagnar marki í leik með Villarreal á síðasta …
Arnaut Danjuma fagnar marki í leik með Villarreal á síðasta tímabili. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur hefur blandað sér í baráttuna um hollenska vængmanninn Arnaut Danjuma þrátt fyrir að hann sé þegar búinn að samþykkja tilboð Everton.

Danjuma stóðst læknisskoðun hjá Everton um helgina og hafði samþykkt að ganga til liðs við félagið að láni frá Villarreal út yfirstandandi tímabil. Hann átti þó eftir að skrifa formlega undir samninginn.

Samkvæmt Sky Sports hefur Tottenham skipulagt læknisskoðun fyrir hann í kvöld með það fyrir augum að skjóta Everton ref fyrir rass í baráttunni.

Villarreal hafði gefið Danjuma grænt ljós á að ræða við félög á Englandi og auk Everton höfðu nýliðar Bournemouth áhuga á að fá hann aftur til sín auk nýliða Nottingham Forest.

Sky Sports greinir frá því að Danjuma hafi verið til í að ganga til liðs við Everton þrátt fyrir óvissu sem stafi af því að Frank Lampard var vikið úr starfi knattspyrnustjóra í gær. Nú er hins vegar útlit fyrir að hann fari frekar til Lundúna.

mbl.is