Klopp horfir á langtímamarkmiðin

Jürgen Klopp vill gefa sér tíma til að byggja lið …
Jürgen Klopp vill gefa sér tíma til að byggja lið Liverpool upp á ný. AFP/Glyn Kirk

Jürgen Klopp kveðst hafa skrifað undir nýjan samning við Liverpool á sínum tíma til þess að hjálpa félaginu við að byggja liðið upp á nýjan leik.

Klopp hefur verið gagnrýndur fyrir slakt gengi liðsins á yfirstandandi tímabili þar sem það hefur aðeins fengið 29 stig úr 19 leikjum og er 21 stigi á eftir toppliði Arsenal og tíu stigum á eftir Manchester United sem er í fjórða sæti deildarinnar.

„Þetta var ein helsta ástæða þess að ég skrifaði undir nýja samning. Ég vissi að þetta væri nauðsynlegt,“ sagði Klopp í viðtali í hlaðvarpsþættinum Michael Calvin's Football People.

„Þetta gerist ekki á einni nóttu. Og hugsið ykkur hvernig staðan væri núna með nýjan stjóra í brúnni. Ég væri einhvers staðar í fríi, stuðningsfólkið myndi syngja nafnið mitt og nýr maður væri í vandræðum.

Ég er enginn kraftaverkamaður. Staðan er allt í lagi eins og hún er núna, því við höfum gengið í gegnum öll þau vandamál sem fylgja endurbyggingartíma. Við glímum við fullt af meiðslum, sem flækja málin verulega. En það er ekkert vandamál í mínum augum því ég horfi á heildarmyndina.

Ég veit að flestir þarna úti hafa bara áhuga á líðandi stund og því sem við gerum núna, en við þurfum að halda einbeitingu yfir langtímamarkmiðunum," sagði Jürgen Klopp.

mbl.is