United með annan fótinn í úrslitaleikinn

Wout Weghorst fagnar marki sínu í kvöld.
Wout Weghorst fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Darren Staples

Wout Weghorst skoraði sitt fyrsta mark fyrir Manchester United þegar liðið vann öruggan sigur, 3:0, gegn Nottingham Forest í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu í Skírisskógi í kvöld.

Marcus Rashford kom United yfir strax á 6. mínútu áður en Weghorst bætti við öðru marki United undir lok fyrri hálfleiks.

Það var svo Bruno Fernandes sem innsiglaði sigur United með marki á 89. mínútu en liðin mætast í síðari viðureign sinni á Old Trafford í Manchester eftir viku.

Í hinu undanúrslitaeinvíginu leiðir Newcastle gegn Southampton, 1:0, en úrslitaleikurinn fer fram sunnudaginn 26. febrúar á Wembley.

mbl.is