Ráku Touré eftir níu leiki

Kolo Touré entist ekki lengi hjá Wigan.
Kolo Touré entist ekki lengi hjá Wigan. AFP

Kolo Touré, fyrrverandi varnarmaður Arsenal og Manchester City, náði aðeins að stýra B-deildarliðinu Wigan í níu leikjum en honum var sagt upp störfum í kvöld.

Touré var ráðinn til Wigan í nóvember þegar Leam Richardson var sagt upp störfum eftir slakt gengi liðsins á tímabilinu. Honum tókst ekki að snúa gengi þess við, uppskar aðeins tvö stig af 27 mögulegum í níu leikjum, og þar með var þolinmæði forráðamanna Wigan á þrotum.

Wigan situr nú á botni B-deildarinnar, fjórum stigum frá öruggu sæti. Tvær vikur eru í næsta leik liðsins og finna á nýjan stjóra á næstu dögum.

mbl.is