Segir Solskjær hafa rætt við Everton

Ole Gunnar Solskjær var knattspyrnustjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær var knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Ole Gunnar Solskjær, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, hefur óvænt verið nefndur til sögunnar sem mögulegur stjóri Everton.

Talið hefur verið fullvíst að Marcelo Bielsa væri á leið til Everton en fréttamaðurinn Fabrizio Romano, sem sérhæfir sig í félagaskiptafréttum, segir að Solskjær sé búinn að ræða við forráðamenn Everton.

Sögunni fylgir að Solskjær vilji að Everton kaupi Harry Maguire og Scott McTominay af Manchester United en þeir hafa ekki átt fast sæti í liðinu þar hjá Erik ten Hag í vetur.

Norðmaðurinn stýrði United frá desember 2018 þar til honum var sagt upp í nóvember 2021.

Everton leitar að knattspyrnustjóra eftir að Frank Lampard var sagt upp störfum fyrr í vikunni.

Bielsa mun vera kominn til Lundúna til viðræðna við Everton, samkvæmt enskum fjölmiðlum í kvöld, og þá er búið að nefna til sögunnar Davide Ancelotti, son Carlo Ancelotti, fyrrverandi stjóra Everton og núverandi stjóra Evrópumeistara Real Madrid. Ancelotti yngri er aðstoðarmaður föður síns hjá spænsku meisturunum og var líka í því hlutverki hjá Everton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert