Everton samþykkir tilboð Newcastle

Anthony Gordon í leik með Everton gegn Chelsea í upphafi …
Anthony Gordon í leik með Everton gegn Chelsea í upphafi tímabilsins. AFP/Lindsey Parnaby

Enska knattspyrnufélagið Everton hefur samþykkt 40 milljóna punda kauptilboð Newcastle United í enska vængmanninn Anthony Gordon.

Kaupverðið gæti hækkað upp í 45 milljónir punda með ýmsum ákvæðum.

Gordon vill ólmur yfirgefa uppeldisfélag sitt Everton og hefur í því skyni neitað að æfa með liðinu. Sky Sports greinir frá því að hann hafi misst af þremur æfingum hjá Everton í vikunni.

Í morgun ítrekaði Gordon ósk sína um að yfirgefa félagið strax í janúarglugganum og mun hann nú ræða við Newcastle um kaup og kjör.

Er búist við því að skiptin gangi í gegn um helgina.

mbl.is