Versti leikur undir minni stjórn

Jürgen Klopp þungur á brún í leiknum gegn Brighton á …
Jürgen Klopp þungur á brún í leiknum gegn Brighton á dögunum. AFP/Glyn Kirk

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segir að sitt lið þurfi að sýna gjörsamlega allt öðruvísi leik gegn Brighton í ensku bikarkeppninni á sunnudaginn en þegar liðin mættust á dögunum í úrvalsdeildinni.

Þá vann Brighton afar öruggan sigur, 3:0, og Klopp sagði á fréttamannafundi í dag að það hefði verið hörmuleg frammistaða hjá sínum mönnum.

„Þetta er versti leikur sem lið hefur spilað undir minni stjórn en sem betur fer höfum við spilað betur í leikjunum eftir það. Við þurfum að spila þennan leik öðruvísi og betur á allan hátt til þess að eiga möguleika á sigri. Brighton spilar geysilega vel um þessar mundir. Við verðum að sýna að við viljum virkilega komast áfram í bikarnum," sagði Klopp.

Leikur liðanna fer fram á heimavelli Brighton á sunnudaginn klukkan 13.30.

mbl.is