Chelsea tilbúið að borga 120 milljónir evra fyrir enn einn leikmanninn

Enzo Fernández kyssir HM-bikarinn eftir að Argentína vann Frakkland í …
Enzo Fernández kyssir HM-bikarinn eftir að Argentína vann Frakkland í úrslitaleiksins mótsins. AFP/Franck Fife

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur farið mikinn á leikmannamarkaðnum í janúar og ef marka má blaðamanninn Fabrizio Romano er það ekki hætt.

Romano greinir frá því á samfélagsmiðlum sínum að Chelsea sé tilbúið að borga 120 milljónir evra fyrir Enzo Fernández, miðjumann portúgalska liðsins Benfica. Jafnframt segir hann að Chelsea sé í sambandi við Benfica og muni gera allt til þess að skiptin gangi í gegn. Forseti Benfica, Rui Costa, hefur þó engan áhuga á því að selja leikmaninn.

Fernández er 22 ára gamall og hefur vakið mikla athygli fyrir spilamennsku sína síðan hann gekk til liðs við Benfica síðasta sumar. Þá var hann lykilmaður í argentínska landsliðinu sem vann heimsmeistaramótið í Katar í desember og var einnig valinn besti ungi leikmaður mótsins.

mbl.is