Frábært sigurmark sló Liverpool út

Fabinho svekktur að leikslokum.
Fabinho svekktur að leikslokum. AFP/Glyn Kirk

Brighton er komið í 16-liða úrslit enska bikarsins í fótbolta eftir 2:1 sigur á Liverpool á The American Express Community Stadium í Brighton í dag.

Fyrri hálfleikurinn var afar fjörugur og bæði lið sköpuðu sér helling af góðum stöðum. Strax á þriðju mínútu bjargaði Lewis Dunk skoti Mohamed Salah af línu og rúmum tíu mínútum síðar endurgreiddi Trent Alexander-Arnold greiðan og bjargað skoti Evan Ferguson á línu. 

Harvey Elliott kom Liverpool yfir á 30. mínútu. Þá þræddi Salah unga Englendinginn í gegn sem setti svo boltann í netið framhjá, en þó með viðkomu í, Jason Steele og gestirnir komnir yfir. 

Níu mínútum síðar fékk Brighton-liðið hornspyrnu. Úr henni barst boltinn til Tariq Lamptey sem skaut utan teigs. Skotið hans fór hinsvegar í Dunk og af honum í netið framhjá Alisson og Brighton-menn búnir að jafna á skrautlegan hátt, 1:1. 

Síðari hálfleikur var ekki jafn opinn og sá fyrri framan af og lokuðu liðin vel á hvort annað. Á 71. mínútu fékk Solly March mjög gott færi eftir glæsilega utanfótar sendingu frá Karou Mitoma en Alisson varði frábærlega og boltinn fór aftur í March og framhjá. 

Evan Ferguson komst tíu mínútum síðar í fínt færi en Ibrahima Konaté bjargaði á ögurstundu. 

Allt stefndi til þess að leikurinn þyrfti að vera endurtekinn á Anfield en á fyrstu mínútu uppbótartíma fékk Brighton aukaspyrnu. Pascal Gross sendi háan bolta á Pervis Estupinán sem kom boltanum á fjærstöngina á Mitoma. Mitoma tók á móti boltanum, vippaði honum svo yfir Joe Gomez og setti hann glæsilega í þaknetið og tryggði Brighton áfram í 16-liða úrslitin. 

Það er því ljóst að Liverpool ver ekki bikarmeistaratitil sinn. 

Kaoru Mitoma fagnar sigurmarki sínu ákaflega.
Kaoru Mitoma fagnar sigurmarki sínu ákaflega. AFP/Glyn Kirk
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Brighton 2:1 Liverpool opna loka
90. mín. Andrew Robertson (Liverpool) fær gult spjald
mbl.is