Nýju tilboði Arsenal líka hafnað

Moises Caicedo fagnar eftir að hafa skorað fyrir Ekvador gegn …
Moises Caicedo fagnar eftir að hafa skorað fyrir Ekvador gegn Senegal á heimsmeistaramótinu í Katar í vetur. AFP/Raul Arboleda

Enska knattspyrnufélagið Brighton hafnaði í kvöld nýju og betra tilboði Arsenal í ekvadorska miðjumanninn Moises Caicedo.

Brighton hafði áður hafnað 60 milljón punda tilboði toppliðsins í þennan 21 árs gamla leikmann. Arsenal bauð í dag 70 milljónir punda en Sky Sports sagði seint í kvöld að samkvæmt heimildum hefði því tilboði líka verið hafnað.

Caicedo var settur út úr leikmannahópi Brighton til loka félagaskiptagluggans, sem er á þriðjudagskvöld, og hann var ekki með í góðum sigri liðsins á Liverpool í bikarkeppninni í dag, 2:1.

Caicedo bað um að fá að vera seldur til Arsenal á Instagram fyrir helgina en það breytti engu um afstöðu forráðamanna Brighton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert