Okkur finnst við geta unnið alla

Lewis Dunk tekur víti gegn Charlton í síðustu umferð enska …
Lewis Dunk tekur víti gegn Charlton í síðustu umferð enska bikarsins. AFP/Glyn Kirk

Lewis Dunk, fyrirliði Brighton, var ánægður eftir að liðið sló Liverpool út úr enska bikarnum í knattspyrnu í dag, 2:1.

„Þvílíkur endir á leiknum. Við vorum ekki upp á okkar besta í dag en unnum sigur á móti frábæru liði. Þeir eru með frábæra leikmenn í sínu liði og af því að við unnum þá hérna fyrir 15 dögum síðan voru þeir alltaf að fara að koma í hefndarhug í dag.

Okkur finnst við geta unnið alla þegar við erum upp á okkar besta en við sýndum í dag að við getum líka unnið þessi lið þó við eigum ekki okkar besta leik. Við erum með frábæran hóp og vonandi getum við farið lengra í þessari keppni.“

Dunk skoraði jöfnunarmark Brighton í leiknum þegar skot Tariq Lamptey breytti um stefnu af honum og endaði í netinu. Dunk segir það ekki hafa verið viljandi.

„Auðvitað var þetta ekki viljandi. Boltinn fór bara í mig. Það var orðið svolítið langt síðan ég skoraði síðast svo það var gaman að gera það í dag.“

Kaoru Mitoma skoraði sigurmark Brighton í leiknum en hann hefur leikið algjörlega frábærlega fyrir liðið undanfarið.

„Það er gott að hafa hann í sínu liði og ég er glaður að þurfa ekki að elta hann. Hann er leikmaður í hæsta gæðaflokki. Við erum heppnir að hafa hann í okkar liði. Vonandi verður hann hérna lengi og heldur áfram á sömu braut.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert