Staðfestir að Liverpool kaupi ekki fleiri leikmenn í janúar

Klopp fylgist með upphitun sinna manna fyrir leik í dag.
Klopp fylgist með upphitun sinna manna fyrir leik í dag. AFP/Glyn Kirk

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, var að vonum svekktur eftir tap gegn Brighton, 2:1, í fjórðu umferð enska bikarsins í knattspyrnu í dag.

„Við áttum góða kafla í þessum leik. Við erum að taka skref í rétta átt en verðum að bæta okkur meira. Við munum halda áfram, líkamstjáning leikmanna var betri og síðast þegar við spiluðum hérna áttum við ekki séns. Í dag hefðum við alveg getað unnið.

Við munum ekki hrynja. Ef það lítur þannig út biðst ég afsökunar á því. Við ætluðum okkur að láta vaða eftir heimsmeistaramótið en hingað til hefur það ekki gengið. Það þýðir bara að við verðum að halda áfram. 

Ég er ekkert himinlifandi með frammistöðuna í dag en hún var talsvert betri en fyrir tveimur vikum síðan. Ég skil það 100 prósent þegar fólk segist vera ósátt með frammistöðu liðsins og ég finn til með stuðningsmönnunum. Við borguðum þeim örlítið til baka í dag en erum samt sem áður úr leik sem var versta mögulega niðurstaðan.“

Þá var Klopp spurður út í hvort félagið ætlaði sér að styrkja leikmannahópinn með nýjum leikmönnum áður en félagsskiptaglugginn lokar um mánaðamótin.

„Það mun ekkert gerast í þessum félagsskiptaglugga. Þannig er það bara.“

mbl.is