Við brugðumst stuðningsmönnunum

Andrew Robertson svekktur eftir leikinn í dag.
Andrew Robertson svekktur eftir leikinn í dag. AFP/Glyn Kirk

Andrew Robertson, varnarmaður Liverpool, var vonsvikinn eftir tap gegn Brighton, 2:1, í fjórðu umferð enska bikarsins í knattspyrnu í dag.

„Þetta eru þvílík vonbrigði. Mér fannst þetta vera góður bikarleikur, endanna á milli og bæði lið fengu færi.

Við vorum betri en fyrir tveimur vikum síðan en það þurfti nú svo sem ekki mikið til. Við sköpuðum færi og vorum þéttir varnarlega en samt sem áður erum við úr leik. 

Hjá félagi eins og Liverpool eru stuðningsmenn með háar væntingar og að tapa leiknum á síðustu spyrnunni eru mikil vonbrigði. Við verðum að fara að vinna leiki, það er auðvelt að segja það en erfiðara að laga vandamálin.

Þetta tímabil hefur verið hræðilegt. Við ætluðum okkur að byrja frá grunni um áramótin en það hefur gengið illa. Við höfum versnað. Við höfum alls ekki verið nógu góðir í deildinni og nú erum við úr leik í báðum bikarkeppnunum. Það er ekki hægt að benda á eitthvað eitt sem er að klikka. Þetta er miklu meira en það. Okkur skortir sjálfstraust sóknarlega og erum opnir varnarlega. Við komum inn í þennan leik eftir að hafa haldið hreinu tvo leiki í röð en svo fáum við á okkur tvö mörk í dag.

Við þurfum að öðlast betra sjálfstraust. Það er hægara sagt en gert en þannig förum við að ná í betri úrslit. Við þurfum að gera það hratt en erum ekki að því núna. Þetta er leiðinlegt fyrir stuðningsmennina okkar og ég vil biðja þá afsökunar. Við brugðumst þeim aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert