Á leið í læknisskoðun hjá Leeds

Weston McKennie er á leið til Englands.
Weston McKennie er á leið til Englands. AFP/Raul Arboleda

Bandaríski knattspyrnumaðurinn Weston McKennie er á leið í læknisskoðun hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Leeds.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en McKennie, sem er 24 ára gamall, er samningsbundinn Juventus á Ítalíu.

Hann er uppalinn hjá Schalke í Þýskalandi en gekk til liðs við Juventus árið 2021 þar sem tækifærin hafa verið af skornum skammti.

Alls á hann að baki 96 leiki fyrir Juventus þar sem hann hefur skorað 13 mörk og gefið fimm stoðsendingar.

McKennie á að baki 41 A-landsleik fyrir Bandaríkin þar sem hann hefur skorað níu mörk en hann mun ganga til liðs við enska félagið á láni og Leeds hefur svo forkaupsrétt á honum næsta sumar.

mbl.is