Everton staðfestir ráðninguna

Sean Dyche er knattspyrnustjóri Everton.
Sean Dyche er knattspyrnustjóri Everton. AFP

Everton staðfesti í dag ráðninguna á Sean Dyche sem nýjum knattspyrnustjóra félagsins en hann tekur við af Frank Lampard sem var sagt upp störfum í síðustu viku.

Dyche er ráðinn til hálfs þriðja árs, til sumarsins 2025, og  stýrir liðinu í fyrsta sinn þegar það tekur á móti toppliði Arsenal á Goodison Park á laugardaginn kemur.

Með honum í þjálfarateyminu verða Ian Woan, Steve Stone og Mark Howard, sem allir unnu með honum hjá Burnley.

Dyche er 51 árs gamall Englendingur sem lék hátt í 500 deildaleiki í neðri deildunum með Chesterfield, Bristol City, Luton, Millwall, Watford og Northampton. 

Hans fyrsta starf sem knattspyrnustjóri var hjá Watford sem hann stýrði tímabilið 2011-12 eftir að hafa verið aðstoðarstjóri í tvö ár þar á undan.

Dyche var sagt upp hjá Watford vorið 2012 en var síðan ráðinn til Burnley í október sama ár. Hann stýrði Burnley í tíu ár, eða þar til honum var sagt upp störfum í apríl á síðasta ári.

Dyche var þá sá knattspyrnustjóri í úrvalsdeildinni sem hafði verið lengt við störf hjá sama félaginu. Hann stýrði Burnley í 425 leikjum og kom liðinu tvisvar upp í úrvalsdeildina. Í seinna skiptið vorið 2016 en eftir að hafa haldið velli í deildinni í fimm ár var liðið á leið niður í B-deildina þegar Dyche var sagt upp störfum.

Hann á mikið verk fyrir höndum hjá Everton sem er næstneðst í úrvalsdeildinni og hefur aðeins unnið þrjá af 20 leikjum sínum á tímabilinu.

mbl.is