Arsenal horfir til Chelsea

Jorginho gæti verið á förum frá Chelsea.
Jorginho gæti verið á förum frá Chelsea. AFP/Oli Scarff

Ítalski knattspyrnumaðurinn Jorginho er sterklega orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal í dag en hann er samningsbundinn Chelsea.

Það er Football Insider sem greinir frá þessu en Jorginho, sem er 31 árs gamall, verður samningslaus næsta sumar.

Hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við Chelsea og forráðamenn Arsenal freista þess nú að krækja í miðjumanninn á útsöluverði.

Jorginho kom til Chelsea frá Napoli sumarið 2018 en alls á hann að baki 213 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 29 mörk.

Félagaskiptaglugganum verður lokað í kvöld og því þurfa Arsenal-menn að hafa hraðar hendur ætli þeir sér að krækja í leikmanninn.

Uppfært:
Kl. 10.05: Chelsea hefur samþykkt tilboð frá Arsenal í Jorginho sem hljóðar upp á 12 milljón pund og er hann á leið í læknisskoðun hjá félaginu.

mbl.is