Eriksen úr leik næstu mánuðina

Christian Eriksen reynir skot að marki Reading í leik liðanna …
Christian Eriksen reynir skot að marki Reading í leik liðanna á laugardaginn. AFP/Oli Scarff

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen leikur ekki með Manchester United næstu mánuðina vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir í bikarleik liðsins gegn Reading á laugardagskvöldið.

Manchester United staðfesti þetta núna um hádegið en framherjinn Andy Carroll tæklaði Eriksen með þessum afleiðingum.

Á heimasíðu United er sagt að væntanlega verði Daninn frá keppni þar til í lok apríl eða byrjun maí en vonir standi til að hann geti tekið þátt í síðustu leikjum tímabilsins. 

Eriksen hefur verið í lykilhlutverki á miðjunni hjá United í vetur og hefur spilað 31 leik með liðinu í öllum mótum.

mbl.is