Fær ekki að yfirgefa Manchester City

Bernardo Silva fær ekki að yfirgefa Manchester City.
Bernardo Silva fær ekki að yfirgefa Manchester City. AFP/Oli Scarff

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Bernardo Silva er ekki á förum frá Englandsmeisturum Manchester City á lokadegi félagaskiptagluggans.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en Silva, sem er 28 ára gamall, hefur verið inn og út úr byrjunarliði City það sem af er tímabili.

Hann gekk til liðs við félagið frá Monaco sumarið 2017 fyrir 43,5 milljónir punda en alls á hann að baki 281 leik fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 50 mörk og lagt upp önnur 56.

Sóknarmaðurinn hefur meðal annars verið orðaður við Barcelona undanfarna mánuði en nú er ljóst að hann mun klára tímabilið með City.

Silva er samningsbundinn City út keppnistímabilið 2024-25 en hann hefur fjórum sinnum orðið Englandsmeistari með City, einu sinni bikarmeistari og fjórum sinnum deildabikarmeistari.

mbl.is