Klúður á síðustu stundu?

Hakim Ziyech er líklega áfram í röðum Chelsea.
Hakim Ziyech er líklega áfram í röðum Chelsea. AFP/Paul Ellis

Allt bendir til þess að marokkóski knattspyrnumaðurinn Hakim Ziyech verði vonsviknasti maðurinn í lok síðasta dags félagaskiptagluggans því skiptum hans frá Chelsea til París SG virðist hafa verið klúðrað á örlagastundu.

Félögin höfðu komist að samkomulagi um að PSG fengi Ziyech lánaðan út þetta tímabil, án skuldbindinga um kaup.

Eftir að tímafresturinn rann út klukkan 23 í kvöld kom á daginn að Chelsea hafði gert mistök í sinni pappírsvinnu, skilaði ekki inn réttum gögnum, og tilraunir til leiðréttinga virðast ekki ætla að ganga upp.

Ziyech, sem var mættur til Parísar, verður því að óbreyttu áfram leikmaður Chelsea, út þetta tímabil hið minnsta.

mbl.is