Leicester kaupir HM-hetju Ástrala

Harry Souttar hefur betur gegn Lionel Messi í leik Ástralíu …
Harry Souttar hefur betur gegn Lionel Messi í leik Ástralíu og Argentínu í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins. AFP/Franck Fife

Enska úrvalsdeildarfélagið Leicester hefur samið við Stoke City um kaup á ástralska landsliðsmanninum Harry Souttar fyrir 15 milljónir punda.

Souttar sló í gegn með Ástralíu á heimsmeistaramótinu í Katar þar sem hann átti hvern stórleikinn á fætur öðrum í vörn liðsins.

Souttar er 24 ára gamall hávaxinn miðvörður sem fæddist og ólst upp í Skotlandi og lék með yngri landsliðum Skota en valdi síðan að spila fyrir Ástralíu, fæðingarland móður sinnar.

Hann ólst upp hjá Celtic og Dundee United, og  fór þaðan til Stoke árið 2016. Hann var lánaður til Ross County í Skotlandi og Fleetwood á Englandi fyrstu tvö árin en hefur leikið samfleytt með Stoke í B-deildinni frá árinu 2020.

Souttar hefur leikið 13 landsleiki fyrir Ástralíu og hefur skorað sex mörk sem er hátt hlutfall hjá varnarmanni. Hann er rétt tæpir tveir metrar á hæð og er næsthæsti landsliðsmaður Ástralíu frá upphafi.

mbl.is