Sannfærður um að Liverpool rífi upp veskið

Jude Bellingham hefur verið sterklega orðaður við Liverpool undanfarna mánuði …
Jude Bellingham hefur verið sterklega orðaður við Liverpool undanfarna mánuði og hann gæti gengið til liðs við félagið næsta sumar. AFP/Sascha Schuermann

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er sannfærður um að félagið muni styrkja sig verulega næsta sumar.

Carragher, sem er 45 ára gamall, lék 737 leiki fyrir Liverpool á árunum 1996 til ársins 2013 en hann starfar í dag sem sparkspekingur hjá Sky Sports.

Liverpool keypti hollenska sóknarmanninn Cody Gakpo í byrjun janúarmánaðar en Jürgen Klopp, stjóri liðsins, greindi frá því um síðustu helgi að félagið myndi ekki versla meira í janúarglugganum.

„Ég skil vel gremjuna í stuðningsmönnum Liverpool sem vilja fá inn nýja leikmenn,“ sagði Carragher þegar hann ræddi málefni Liverpool á Sky Sports.

„Öll toppliðin á Englandi eru að eyða háum fjárhæðum og þetta lítur út eins og félagið sé búið að gefast upp á því að ná Meistaradeildarsæti.

Það má samt ekki gleymast að það eru margir leikmenn meiddir þessa stundina og það má alveg segja sem svo að óheppnin hafi elt liðið, meiðslalega séð, á tímabilinu.

Ég er hins vegar sannfærður um það að forráðamenn félagsins muni rífa upp veskið næsta sumar og styrkja hópinn verulega,“ bætti Carragher við.

mbl.is