Serbneskur miðjumaður til Fulham

Sasa Lukic í leik með Serbíu á HM í Katar.
Sasa Lukic í leik með Serbíu á HM í Katar. AFP/Manan Vatsyayana

Enska knattspyrnufélagið Fulham hefur fest kaup á serbneska miðjumanninum Sasa Lukic frá ítalska félaginu Torino. Kaupverðið er átta milljónir punda og skrifaði hann undir fjögurra og hálfs árs samning.

Lukic, sem er 26 ára gamall, hefur verið á mála hjá Torino frá árinu 2016 og verið lykilmaður undanfarin tímabil.

Hann er landsliðsmaður Serbíu og lék alla þrjá leiki liðsins sem byrjunarliðsmaður á HM 2022 í Katar í síðasta mánuði.

Kvaðst Lukic í samtali við heimasíðu Fulham spenntur fyrir því að spila fyrir félagið og hitta fyrir landa sinn Aleksandar Mitrovic, helsta markaskorara liðsins og serbneska landsliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert