Þrefaldur Evrópumeistari í markið hjá Forest

Keylor Navas er kominn til Nottingham Forest.
Keylor Navas er kominn til Nottingham Forest. AFP/Fayez Nureldine

Enska knattspyrnufélagið Nottingham Forest hefur fengið markvörðinn reynda Keylor Navas lánaðan frá París SG í Frakklandi.

Navas er 36 ára Kostaríkamaður sem sló í gegn með þjóð sinni á HM í Brasilíu árið 2014 og hefur frá þeim tíma leikið með stórliðunum Real Madrid og París SG. Hann varð m.a. þrefaldur Evrópumeistari með Real Madrid og vann samtals tólf titla með félaginu en Navas hefur leikið 564 leiki með félagsliðum sínum á ferlinum.

Forest er í vandræðum eftir að markvörðurinn Dean Henderson meiddist og Wayne Hennessy var eini markvörðurinn með reynslu sem var leikfær hjá félaginu.

Miðjumaðurinn Jonjo Shelvey er ennfremur kominn til Nottingham Forest frá Newcastle og hefur samið við félagið til hálfs þriðja árs.

mbl.is