Tottenham náði í bakvörð og leyfði öðrum að fara

Pedro Porro fagnar marki í leik með Sporting Lissabon.
Pedro Porro fagnar marki í leik með Sporting Lissabon. AFP/Patricia de Melo Mreira

Enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur krækti í spænskan bakvörð á síðustu stundu áður en lokað var fyrir félagaskiptin, og sendi um leið írskan bakvörð til Spánar.

Tottenham náði núna laust fyrir lokun félagaskiptagluggans að ganga frá lánssamningi við Sporting Lissabon í Portúgal um bakvörðinn Pedro Porro, en Tottenham hefur rétt á að kaupa hann fyrir um 40 milljónir punda í sumar.

Porro er 23 ára gamall og var í röðum Manchester City í þrjú ár án þess að spila leik fyrir félagið. Hann var á láni á Spáni og síðan hjá Sporting þar til hann gekk til liðs við portúgalska félagið sumarið 2020. Porro hefur spilað einn A-landsleik fyrir Spán.

Matt Doherty fékk hins vegar að fara frá Tottenham til Atlético Madrid án greiðslu. Það mun hafa komið til vegna þess að Tottenham var þegar búið að fylla kvóta FIFA með því að lána átta leikmenn á tímabilinu. Doherty er 31 árs gamall Íri sem kom til Tottenham frá Wolves fyrir þremur árum og hefur leikið 33 landsleiki fyrir Írland.

mbl.is