Verður heimsmeistarinn sá dýrasti í sögunni?

Enzo Fernández og Lionel Messi í úrslitaleiknum á HM.
Enzo Fernández og Lionel Messi í úrslitaleiknum á HM. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Knattspyrnumaðurinn Enzo Fernández er sterklega orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea.

Sky Sports greindi frá því í vikunni að Chelsea hefði boðið rúmlega 105 milljónir punda í miðjumanninn sem er einungis 22 ára gamall.

Hann var í lykilhlutverki hjá argentínska landsliðinu þegar liðið varð heimsmeistari í Katar í desember á síðasta ári og var meðal annars útnefndur besti ungi leikmaður mótsins.

Forráðamenn Benfica íhuga nú hvort þeir eigi að selja leikmanninn en þeir höfðu áður hafnað tveimur tilboðum Chelsea í miðjumanninn.

Félagaskiptaglugganum verður lokað á miðnætti á Bretlandi í kvöld og Chelsea-menn bíða nú óþreyjufullir eftir svari frá forráðamönnum Benfica.

Fari svo að Fernández verði seldur á rúmlega 105 milljónir punda verður hann dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Jack Grealish er sá dýrasti í dag en Manchester City borgaði Aston Villa 100 milljónir punda fyrir hann sumarið 2021.

mbl.is