Afskrifaði 194 milljóna skuld Leicester

Úr leik karlaliðs Leicester City gegn Newcastle United í síðasta …
Úr leik karlaliðs Leicester City gegn Newcastle United í síðasta mánuði. AFP/Paul Ellis

Aiyawatt Srivaddhanaprabha, stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Leicester City, hefur ákveðið að afskrifa skuldir félagsins til King Power International, eiganda þess. Srivaddhanaprabha-fjölskyldan á KPI.

Ekki var um neina smápeninga að ræða heldur 194 milljónir punda.

Skuld þessi hefur hangið yfir Leicester í nokkurn tíma og gert karlaliðinu erfitt fyrir, ekki síst á leikmannamarkaðnum þar sem liðið hefur ekki farið mikinn undanfarið ár.

Aðeins einn leikmaður, Wout Faes, var keyptur síðastliðið sumar en tveir varnarmenn, Harry Souttar og Victor Kristiansen, voru keyptir í janúarglugganum án þess að þörf hafi verið á því að selja aðra leikmenn fyrst, líkt og var raunin síðasta sumar þegar Wesley Fofana var seldur til Chelsea fyrir 70 milljónir punda.

Srivaddhanaprabha sagði í tilkynningu að ástæðan fyrir afskrift skuldarinnar væri fyrst og fremst sú að tryggja það að hagur félagsins yrði sem vænstur til framtíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert