Dýrasti leikmaður félagsins

Kamaldeen Sulemana hughreystir samherja sinn eftir ósigur Gana gegn Úrúgvæ …
Kamaldeen Sulemana hughreystir samherja sinn eftir ósigur Gana gegn Úrúgvæ á HM í Katar í vetur. AFP/Khaled Desouki

Southampton, sem situr í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, setti félagsmet í gærkvöld þegar það gekk frá kaupum á tvítugum Ganamanni.

Sá heitir Kamaldeen Sulemana og Southampton greiddi Rennes í Frakklandi 22 milljónir punda fyrir hann en þar með er pilturinn orðinn dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Kamaldeen þegar leikið 15 A-landsleiki fyrir Gana og lék með liðinu á heimsmeistaramótinu í Katar en hann er eldfljótur kantmaður sem var áður í röðum Nordsjælland í Danmörku.

Southampton lét ekki þar við sitja því félagið keypti á allra síðustu stundu í gærkvöld Paul Onuachu, nígerískan framherja, frá Genk í Belgíu fyrir 18 milljónir punda. Onuachu er 28 ára gamall, rúmlega tveggja metra hár, og hefur leikið 16 landsleiki fyrir Nígeríu en hann skoraði 17 mörk í 22 leikjum með Genk í vetur.

Onuachu er líka með danskan bakgrunn því hann lék með Midtjylland í sjö ár áður en hann gekk til liðs við Genk árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert