Lygileg eyðsla Chelsea á tímabilinu

Enzo Fernández er dýrasti leikmaður í sögu Bretlandseyja, kostaði um …
Enzo Fernández er dýrasti leikmaður í sögu Bretlandseyja, kostaði um 106 milljónir punda. AFP/Miguel Riopa

Eyðsla enska knattspyrnufélagsins Chelsea hefur vakið mikla athygli á tímabilinu. Með því að gera Enzo Fernández að dýrasta leikmanni í sögu ensku úrvalsdeildarinnar seint í gærkvöldi er heildarupphæðin komin yfir 567 milljónir punda.

Í sumarglugganum fór félagið mikinn og festi kaup á Wesley Fofana, Marc Cucurella, Raheem Sterling, Kalidou Koulibaly, Carney Chukwuemeka, Pierre-Emerick Aubameyang og Gabriel Slonina auk þess að fá Denis Zakaria að láni. Samtals greiðir Chelsea um 249 milljónir punda fyrir þessa átta leikmenn.

Í janúarglugganum hægðist ekkert á Chelsea sem keypti áðurnefndan Fernández auk Mykhailo Mudryk, Benoit Badiashile, Noni Madueke, Malo Gusto, Andrey Santos og David Datro Fofana og fékk auk þess Joao Félix að láni. Greiðir félagið um 318 milljónir punda fyrir þessa átta leikmenn.

Þar með hafa 16 nýir leikmenn samið við Chelsea frá því í sumar.

Hvernig fer Chelsea að?

Þessi gífurlega eyðsla Chelsea hefur ekki síst vakið athygli með tilliti til reglna Knattspyrnusambands Evrópu um fjárhagslega háttvísi (e. financial fair play).

Samkvæmt þeim er félögum gert að eyða ekki um efni fram, ellegar sæta ýmis konar refsingum. Hvernig fer Chelsea þá að því að eyða þetta háum fjárhæðum án þess að lenda í vandræðum hjá UEFA?

Svarið liggur helst í óvenjulega löngum samningum sem allflestir ofangreindir leikmenn hafa skrifað undir hjá Chelsea. Sem dæmi samdi Mudryk til átta og hálfs árs, til sumarsins 2031.

„Það sem Chelsea hefur ákveðið að gera er að dreifa kostnaði leikmanna með því að gera við þá mjög langa samninga.

Með því að semja við Mykhailo Mudryk á átta og hálfs árs samningi eru kaupin meðhöndluð á þann hátt, með tilliti til bókhalds og fjárhagslegrar háttvísi, að 89 milljóna punda kostnaðinum er dreift yfir átta og hálft ár, sem kemur út á kostnað upp á einungis um tíu milljónir punda á ári.

Þetta virðist stefnan sem Chelsea hefur ákveðið að vinna eftir í síðustu tveimur félagaskiptagluggum,“ sagði Kieran Maguire, sérfræðingur í fjármálum í knattspyrnu, í samtali við Sky Sports.

mbl.is