Ósáttur við ummæli um nýjasta leikmann United

Marcel Sabitzer er kominn til Manchester United.
Marcel Sabitzer er kominn til Manchester United. AFP/Christof Stache

Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður Manchester United og enska landsliðsins í fótbolta, er allt annað en sáttur við ummæli Paul Merson, sem lék með Arsenal og Aston Villa á sínum tíma.

Merson gagnrýndi United fyrir að ná í Marcel Sabitzer frá Bayern München í gær, en Austurríkismaðurinn kemur að láni frá þýska liðinu.

„Þetta er lítið annað en örvænting þegar þú ert að ná í varaskeifur Bayern München. Félagið hafði engan áhuga á að fá leikmanninn til sín 1. janúar og ég efast um að hann styrki liðið,“ sagði Merson á Sky.

„Ég sá ummælin hjá Merson og hann virðist aldrei hafa séð Sabitzer spila. Þú ert ekki keyptur til Bayern ef þú ert einhver bjálfi. Hann er mjög góður fótboltamaður,“ sagði Ferdinand í hlaðvarpsþætti sínum.

mbl.is