Senda frá sér yfirlýsingu vegna Greenwoods

Mason Greenwood.
Mason Greenwood. AFP/Paul Ellis

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United hafa sent frá sér yfirlýsingu eftir að mál Masons Greenwoods, leikmanns liðsins, var látið niður falla í dag.

Greenwood, sem er 21 árs gamall, var meðal annars ákærður fyrir líkamsárás og tilraun til nauðgunar gagnvart fyrrverandi unnustu sinni í ársbyrjun.

Það var lögreglan í Manchester sem greindi frá því að málið hefði verið látið niður falla en ekki hefur þó komið fram hvers vegna.

„Manchester United er meðvitað um að mál Masons Greenwoods hafi verið látið niður falla,“ segir í yfirlýsingu Manchester.

„Málið er í ferli hjá félaginu. Við munum ekki tjá okkur frekar um málið fyrr en að ferlinu er lokið,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert