Tjáir sig í fyrsta sinn eftir handtökuna

Mason Greenwood.
Mason Greenwood. AFP

Knattspyrnumaðurinn Mason Greenwood hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir að mál, sem höfðað var gegn honum fyrir líkamsárás, tilraun til nauðgunar og lífslátshótanir í garð fyrrverandi unnustu sinnar, var látið niður falla í dag.

Greenwood, sem er 21 árs gamall, var handtekinn í janúar á síðasta ári en til stóð að hann myndi mæta fyrir dóm í nóvember á þessu ári.

Sóknarmaðurinn hefur hvorki æft né spilað með Manchester United síðan hann var handtekinn. Félagið sendi einnig frá sér yfirlýsingu í dag þar sem greint var frá því að málið væri einnig í ferli innan þess áður en tekin yrði ákvörðun um framhaldið.

„Það er mikill léttur að þessu máli sé loksins lokið og ég vil nota tækifærið og þakka fjölskyldu minni, ástvinum og vinum fyrir stuðninginn,“ sagði Greenwood í yfirlýsingu sem hann sendi breskum fjölmiðlum.

„Ég mun ekki tjá mig frekar um málið að svo stöddu,“ bætti knattspyrnumaðurinn við en hann á að baki 129 leiki fyrir United þar sem hann hefur skorað 35 mörk og lagt upp önnur tólf.

mbl.is