Jota og van Dijk nálgast endurkomu

Diogo Jota snýr aftur til æfinga eftir helgi.
Diogo Jota snýr aftur til æfinga eftir helgi. AFP

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Diogo Jota mun snúa aftur til æfinga hjá Liverpool í næstu viku. Þá gæti Virgil van Dijk gert slíkt hið sama. Báðir hafa þeir verið meiddir um skeið.

Þessu greindi Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, frá á blaðamannafundi í dag.

Þar sagði hann að sóknarmaðurinn Jota myndi hefja æfingar eftir helgi og að Virgil van Dijk og Roberto Firmino væru að nálgast endurkomu.

Styttra væri þó í van Dijk en Firmino þar sem hollenski miðvörðurinn gæti líkt og Jota hafið æfingar í næstu viku.

Liverpool heimsækir Wolverhampton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

mbl.is