Með langtímasamning við Arsenal

Gabriel Martinelli fagnar marki fyrir Arsenal.
Gabriel Martinelli fagnar marki fyrir Arsenal. AFP/Glyn Kirk

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Gabriel Martinelli hefur skrifað undir nýjan samning við Arsenal, topplið ensku úrvalsdeildarinnar.

Félagið tilkynnti þetta í dag og segir að þessi 21 árs gamli sóknarmaður hafi skrifað undir langtímasamning en meira er ekki sagt um lengd samningsins. Sky Sports segir að samningurinn sé til fjögurra og hálfs árs, eða sumarsins 2027.

Martinelli er á sínu fjórða tímabili með Arsenal og hefur þegar spilað 111 mótsleiki fyrir félagið. Þar af voru 36 á síðasta tímabili og hann hefur þegar spilað 27 leiki á yfirstandandi tímabili og skorað sjö mörk.

Martinelli kom til Arsenal frá Ituano í Sao Paulo sumarið 2019, eftir að hafa verið valinn efnilegasti leikmaður brasilíska fylkisins Sao Paulo. Hann var í brasilíska landsliðshópnum á HM í Katar og hefur spilað sex A-landsleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert