Nýju mennirnir allir í hóp á Old Trafford

Marcel Sabitzer verður í leikmannahópi Manchester United á morgun.
Marcel Sabitzer verður í leikmannahópi Manchester United á morgun. AFP/Christof Stache

Manchester United fær Crystal Palace í heimsókn á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á morgun. Þar munu þrír nýir leikmenn vera í leikmannahópum liðanna.

Austurríski miðjumaðurinn Marcel Sabitzer, sem kom að láni frá Bayern München, verður í leikmannahópi Man. United.

Það staðfesti Erik ten Hag, knattspyrnustjóri liðsins, á blaðamannafundi í dag.

Sömu sögu er að segja af miðjumönnunum Naouirou Ahamada og Albert Sambi Lokonga. Crystal Palace keypti Ahamada frá Stuttgart og Sambi Lokonga kom til félagsins að láni frá Arsenal.

Patrick Vieira, knattspyrnustjóri Palace, sagði á blaðamannafundi í dag að þeir yrðu báðir í leikmannahópi liðsins á morgun.

Allir þrír sömdu leikmennirnir við liðin tvö á þriðjudag, lokadegi félagaskiptagluggans.

Leikur Man. United og Crystal Palace hefst klukkan 15 og verður sýndur í opinni dagskrá á Sjónvarpi Símans.

mbl.is